Markaðssetning á Facebook – 15 góð ráð

Þökk sé Facebook getur þú núna kynnt vörur og þjónustu með litlum eða engum kostnaði. Það er hinsvegar mjög algengt að fyrirtæki rjúki af stað og taki þátt í netsamfélagsvæðingunni án þess að hugsa ferðina til enda. Hafðu í huga að markaðssetning á Facebook krefst undirbúnings OG eftirfylgni.

Það er alls ekki nóg að henda bara upp Facebook síðu og setja svo þar inn efni og upplýsingar í stórum stíl. Sé það gert fær fólk fljótt leið á “þér” og hættir að fylgjast með síðunni. Hafa verður í huga að fólk velur að fylgjast með þér og þínu fyritæki

Mundu að Facebook er samfélag á netinu en ekki tímarit eða bæklingur. Það gilda því allt aðrar “reglur” um það hvernig þú kynnir þig og vörurnar þínar þar heldur en í öðrum miðlun, en það eru einmitt þessar reglur sem flestir brjóta og skilja svo ekki hversvegna árangurinn á Facebook er lítill eða enginn.

Til að hjálpa þér að fara rétt af stað á Facebook settum við saman 15 ráðleggingar sem geta gert gæfumuninn fyrir þig og þitt fyrirtæki. Mundu að þú getur líka kíkt í kaffi til okkar og við farið yfir þetta saman!

Fyrstu skrefin með fyrirtækið Facebook


1. Prófíllinn þinn á Facebook

Fyrsta skrefið í að koma sér á framfæri á Facebook er að búa til prófíl. Prófílin notar þú svo til að eiga samskipti við aðra Facebook notendur og til að auka sýnileika þinn á netinu og styrkja ímynd fyrirtækisins.

★ Prófílnafnið: Það er mikilvægt að nafnið sem þú notar á Facebook sé nafn ákveðins vörumerkis. Þegar þú átt síðan í samskiptum við aðra notendur fer þá ekkert á milli mála fulltrúi hvaða fyritækis er í umræðunni. Sé fyrirtækið með mörg útibú/verslanir, jafnvel í ólíkum landshlutum er mikilvægt að prófíllinn standi fyrir fyrirtækið í heild sinni. Einstaka útibú geta svo verið með sér aðdáendasíðu þar sem þau geta átt í samskiptum beint við sína viðskiptavini og aðdáendur.

★ Prófílmyndin: Fyrstu kynni eru mikilvæg og það er mikilvægt að sýna alltaf sínar bestu hliðar. Það þýðir að þú átt að nota flotta mynd sem höfðar til sem flestra. Það er staðreynd að fólk dæmir bókina eftir kápunni og hið sama gerist á Facebook.

Við rákumst til að mynda á hóp sem MAC snyrtivörur halda úti. Myndin á hópnum er vissulega flott en maður spyr sig samt til hverra hún eigi að höfða. Við þekkjum í það minnsta fáar konur/stúlkur sem fara að farða sig svona. Hafði ekki verið nær að nota mynd sem fær hugsanlega viðskiptavini til að hugsa “vá, ég vil geta málað mig svona!” – Mynd sem höfðar til allra og eykur mögulega sölu er mun betri kostur.

★ Nýjir aðdáendur/fylgjendur: Þegar prófíllinn þinn er tilbúinn skaltu ekki bíða eftir að aðrir leiti til þín. Óskaðu eftir því að allir starfsmenn gerist aðdáendur og deili síðunni á veggnum sínum. Einnig gæti verið skynsamlegt að nota kostaðar auglýsingar. Notaða allar mögulegar leiðir til að kynna nýstofnaða síðu, svosem heimasíðuna þína, aðra samfélagsmiðla, auglýsingar og láttu starfsmenn segja viðskiptavinum frá henni.

★ Veggurinn: Veggurinn þinn (Wall) er það svæði sem þú notar mest til að eiga samskipti við aðra aðdáendur/fylgjendur. Settu reglulega skilaboð á vegginn þinn og taktu þátt í umræðunni þegar það á við.

Einn starfsmaður hér hjá okkur skrifaði eitt sinn eitthvað um mat á vegginn sinn og veitingastaður (sem var “vinur” hans) setti inn ummæli við það sem var sagt. Ummælin voru ekki bara viðeigandi heldur voru þau hjálpleg. Þarna voru mynduð persónuleg tengsl og við höfum heimsótt þennan veitingastað oft síðan!

Mundu bara að ofgera ekki í uppfærslum og samskiptum því þá eru góðar líkur á að aðdáendunum fækki fljótt.

★ Myndir og myndbönd: Mynd segir meira en þúsund orð og myndband jafnast þá sennilega á við heila orðabók. Góð mynd grípur augað mun hraðar og betur en texti auk þess sem margir notendur skoða myndauppfærslur sérstaklega.

Rétt notkun á vönduðu myndefni er góð leið til að styrkja ímynd og sýna/kynna vörur. Auk þess hefur fólk gaman að því að sjá hvað fer fram á bakvið tjöldin og því getur verið sniðugt að sýna myndir úr framleiðsluferlum, af tökustað þegar auglýsingar eru gerðar, af starfsmönnum við að taka upp nýjar vörur og svo framvegis. Notaðu hugmyndaflugið og veltu því fyrir þér hvað þínum viðskiptavinum gæti þótt spennandi að sjá.

2. Aðdáendasíður – Fan Pages

Aðdáendasíður eða Fan Pages (Facebook Pages) eru síður sem eru hugsaðar fyrir fyrirtæki, vörumerki, verslanir, vörur og fræga einstaklinga. Þessar síður gefa einnig opinberum einstaklingum, samtökum og öðrum sem vilja tækifæri á að koma sér á framfæri opinberlega. Stærsti kosturinn við aðdáendasíður er að þær eru opnar öllum á internetinu en ekki bara þeim sem nota Facebook.

★ Aðdáendasíða er skylda: Ætlir þú að taka þátt á Facebook verður þú hreinlega að setja upp svona síða og hvetja síðan notendur og vini til að “like-a” síðuna og vera aðdáendur. Aðdáendasíður eru besti vettvangurinn til að deila upplýsingum, myndum, myndböndum, koma af stað umræðum og fræða fólk.

★ Aðdáendasíður með réttan fókus: Til að ná hámarks árangri er æskilegt að vera með þröngan en skýran fókus. Tökum dæmi: Ef við værum að reka fataverslun með föt fyrir konur, karlmenn og börn myndum við útbúa a.m.k. 3 aðdáendasíður. Ástæðan er sú að karlmennirnir hafa líklega lítinn (eða engann) áhuga á kven- og barnafötum.

Þess vegna væri gerð sér aðdáendasíða sem höfðar 100% til karlmanna. Þar væru myndir og upplýsingar um herrafatnaðinn, góð ráð gefin varðandi klæðaburð og settar inn upplýsingar um hvað sé heitt og kalt hverju sinni svo fátt eitt sé nefnt

Einnig myndum við sníða efnið eftir því hvaða aldurshópur væri stærstur í markhópnum okkar. Ef t.d. ungir strákar (16-25 ára) væru stærsti hópurinn myndum við sennilega setja inn góð stefnumótaráð og benda á heitustu skemmtistaðina á föstudögum. Ef stærsti hópurinn væru hinsvegar eldri menn myndum við frekar benda á leikhús, góða veitingastaði og slíkt og minna þá á að vera rétt dressaða.

3. Hópar – Groups

Facebook hópar gefa fólki tækifæri á að deila saman upplýsingum og umræðum um sameiginlegt áhugamál, málstað eða viðburð. Hópur getur því verið góð leið til að skapa samfélagsumræðu um tilteknar vörur, nýjungar og fleira í þeim dúr.

★ Bein skilaboð til margra: Einn stærstu kosturinn við hóp er að þar hefur þú sem stjórnandi möguleika á að senda skilaboð beint til allra í hópnum, nokkuð sem er ekki hægt í gegnum prófíl eða aðdáendasíðu.

★ Boðið í bunkum: Annar stór kostur við hópa er að þú getur boðið mörgum í einu að taka þátt í hópnum (en ekki bara einum í einu). Hópar henta þessvegna sérstaklega vel þegar þú þarft að kynna eitthvað á stuttum tíma og skapa mikla umræðu hratt.

4. Viðburðir – Events

Facebook viðburðir geta spilað lykilhlutverk í að tengja þig saman við markhópinn þinn, jafnvel þótt fjölmargir notendur séu ekki á vinalistanum þínum eða aðdáendur. Það er líka kostur að þú getur stofnað viðburði án þess að þeir séu tengdir við prófílinn þinn eða aðdáendasíður.

★ Opnir og lokaðir viðburðir: Eitt af því sem þú getur stillt þegar þú stofnar viðburð er að velja hvort viðburðinn sé lokaður eða opinn fyrir alla. 

Við skulum útskýra muninn stuttlega. Fyrir skömmu síðan fékk starfsmaður hér boð á tónleika sem voru haldnir á skemmtistaðnum Nasa. Starfsmaðurinn er ekki vinur Nasa á Facebook né aðdáandi en vegna þess að viðburðurinn er opinn er hægt að bjóða hverjum sem er.

Ef þú vilt hinsvegar aðeins bjóða útvöldum geturðu valið að hafa viðburðinn lokaðann. Það kemur sér t.d. vel þegar halda á for-útsölu fyrir útvalda viðskiptavini. Þá getur þú valdið nákvæmlega hverjir sjá (og vita af) viðburðinum og hverjir ekki.

 

Næstu skref: Markaðssetning á Facebook

Notkun á samfélagsmiðlum til markaðssetningar er frekar ný af nálinni. Þess vegna eru fyritæki enn að fikra sig áfram með hvað virkar og hvað virkar ekki þar sem “reglurnar” er enn nokkuð óljósar.

Við mælum ekki með því að þú prófir eitthvað nema þú vitir að það virkir því það er auðvelt að gera dýr mistök sem erfitt er að bæta fyrir. Mundu að það er alltaf gott að ráðfæra sig við fagmenn með reynslu!

Hér að neðan eru nokkur lykilatriði sem tryggja þér góðan árangur, auk þess sem þér er velkomið að slá á þráðinn til okkar eða kíkja í kaffi með hverjar þær spurningar sem þú kannt að hafa.

5. Einstakt verðmæti og ferskar uppfærslur

Það er fátt leiðinlegra heldur en óspennandi Facebook síður sem eru uppfærðar sjaldan. Ef það er einhver ein regla umfram aðrar sem þú ættir að tileinka þér þá er það þessi hér.

★ Skemmtanagildi: Gerðu allt sem þú getur til að hafa prófílinn þinn persónulegan og skemmtilegan. Ef þú hefur tök á því láttu útbúa apps/leiki, bara fyrir síðuna þína.

★ Fersk- og frumleiki: Það er ekki nóg að uppfæra prófíl og aðdáendasíður reglulega ef innihaldið er óspennandi. Settu þig í spor viðskiptavina þinna og veltu því fyrir þér hvað þeir vilji sjá á síðunni þinni (ekki bara hvað þú vilt láta sjást þar).

★ Sýndu fram á verðmæti: Þeir sem ná mestum árangri Facebook eru þeir sem deila verðmætu efni og gefa af sér. Hvaða upplýsingum býrð þú yfir sem viðskiptavinir þínir og aðdáendur geta nýtt sér og grætt á? Það er akkúrat efnið sem þú átt að deila.

Ef þú getur gefið góð ráð, leyst úr vandamálum og veitt upplýsingar sem aðrir búa ekki yfir mun þín markaðssetning á Facebook ganga mun betur er samkeppnisaðilanna!

6. STÓRAR myndir segja sex

Hver segir að stærðin skipti ekki máli? Það að nota STÓRA mynd á prófílinn er ein besta leiðin til að stimpla sig inn í huga fólks og auðkenna Facebook síðuna þína.

★ Stærðin skiptir máli: Vissirðu að þú getur notað mynd sem er 200 punkta víð og 600 punkta breið? Þegar þú fullnýtir stærðina þá stendurðu svo sannarlega upp úr fjöldanum. Kíktu á síðuna hjá Bob Marley til að sjá hvað ég er að tala um!

7. Merktu vini á myndum – Tagging

Þú getur merkt (tag) vini þína á myndum – þó svo að myndin sé af nýjum vörum eða einhverju öðru. Þú getur líka beðið vini/aðdáendur að merkja sig sjálfa á myndum sem þú birtir, t.d. sem part af leik eða keppni.

★ Ekki finna upp hjólið: Það er algjör óþarfi að eyða miklum tíma í að velta vöngum yfir því hvernig sé best að gera hlutina. Það er fjöldi fyrirtækja, verslana, tónlistarmanna og annarra að gera mjög góða hluti á Facebook sem auðvelt er að herma eftir.

Til dæmis hélt Lenný Kravitz tónleika á Ítalíu árið 2009. Í kjölfarið setti hann myndir af gargandi aðdáendum inn á Facebook síðuna sína og bað aðdáendurnar að merkja sig inn á myndina ef þeir voru á tónleikunum. Þúsundir aðdáenda merktu sig og fyrir vikið var myndin sýnd á prófíl síðum hjá þúsundum notenda. Mjög góð og einföld leið til að fá mikla birtingu/auglýsingu án fyrirhafnar og kostnaðar.

8. Sérhannaðar lendingarsíður fyrir notendur

Notaðu mismunandi síður til að ná til ólíkra markhópa. Ég ræddi stuttlega um það ofar hve mikilvægt það er að hver síða höfði til ákveðins markhóps. Það er hægt að taka þetta skrefinu lengra og vera með sérhannaða lendingarsíðu sem ótvírætt hvetur notendur til að gera “Like” á síðuna. Það er hægt að gera þetta með leikjum/applications eða hreinlega með sniðugum síðum sem gefa notendanum vísbendinum um að smella á like.

★ Lærðu af snillingum: Red Bull er að gera alveg frábæra hluti á Facebook en eitt af því flottara sem þeir hafa gert er sérhönnuð lendingarsíða sem ótvírætt hvetur þig til að gera “like” á síðuna þeirra. Eiginlega er erfitt að gera ekki “like”!

Athugaðu að ef þú ert notandi þá lendirðu á þessari síðu hjá þeim (sjá mynd) en ef þú ert orðinn aðdáandi þá ferðu beint á vegginn þeirra.

9. Verðlaun fyrir dygga aðdáendur

Hvettu viðskiptavini (og aðra) til að koma í aðdáendaklúbbinn þinn á Facebook og verðlaunaðu þá svo í kjölfarið. Hægt er að búa til allskyns keppnir og leiki í tengslum við þetta þar sem til dæmis er hægt að útbúa sérstakt merki fyrir “aðdáenda mánaðarins” sem hann smellir svo á prófíl myndina sína.

Verðlaun fyrir dygga aðdáendur þarf að sjálfsögðu að upphugsa út frá aldri, kyni og slíku til að tryggja að verðlaunin hitti í mark og séu viðeigandi. Mundu bara að ánægður aðdáandi á Facebook getur skilað þér gríðarlega mikilli athygli.

Þegar vinir aðdáandans sjá áhugaverðar uppfærslur, verðlaun og slíkt er mjög líklegt að þeir vilji taka þátt í gleðinni.

ps. Vertu ófeimin(n)  við að minna aðdáendur þína reglulega á að gera “like” og “share”

pps. gerðu endilega like við þessa grein og deildu henni á Facebook fyrir okkur!

10. Notaðu keppnir og kannanir

Það að halda keppnir hvetur aðdáendur þína til að eiga gagnvirk samskipti við þig. Hið sama á við um kannanir. Skemmtileg og vel útfærð könnun er ekki bara góð leið til að virkja aðdáendurnar heldur getur könnunin einnig veitt góða innsýn í það hvað viðskiptavinir vilja. Svo lengi sem þú færð aðdáendurnar þína til að eiga samskipti, birta myndir og taka þátt ertu að gera góða hluti.

★ Tvö góð dæmi: Dominos í Bandaríkjunum settu á fót leik þar sem aðdáendur gátu tekið mynd af Dominos pizzunni sem þeir höfðu verið að fá og sent hana inn á Facebook. Í hverjum mánuði var svo “pizza ljósmyndari mánaðarins” dreginn út og fékk hann 500 dollara í verðlaun og bauðst að koma fram í auglýsingu fyrir Dominos.

Burger King bjó til mjög sniðugan leik(app)  árið 2009 þar sem þú gast fengið ókeypis máltíð ef þú fórnaðir 10 vinum með því að henda þeim út af vinalistanum þínum. Þegar notandinn henti út vinum í gegnum app-ið þá setti það skilaboð á vegginn hans sem voru á þessa leið: “Steven fórnaði John til að fá ókeypis hamborgara!”

Af hverju var þetta svona mikil snilld hjá Burger King? Jú, vegna þess að venjulega færðu ekki að vita það ef einhver hendir þér útaf vinalistanum sínum, en í þessu tilviki sendi app-ið tilkynningu um að viðkomandi hefði verið fórnað fyrir Whooper.

Ef þig vantar góðar hugmyndir að leikjum, keppnum eða könnunum, settu þig á í samband við okkur. Við eigum fullar fjársjóðskistur af góðum hugmyndum.

11. Kostaðar auglýsingar á Facebook

Þú getur svo sannarlega sett í fluggírinn með því að nýta þér kostaðar auglýsingar á Facebook. Kostaðar auglýsingar á Facebook veita þér aðgang að þorra íslendinga þar sem þú getur nálgast markhópinn þinn á lýðfræðilegan máta. Auk þess að geta herjað á íslendinga getur þú vitanlega einnig auglýst til allra annarra notenda um allan heim.

★ Ekki er allt gull sem glóir: Það er vissulega auðvelt að búa til sínar eigin auglýsingar á Facebook en það er að sama skapi mjög varhugavert fyrir þá sem ekki eru vanir að vinna með PPC auglýsingar. Til að tryggja það að þú sért ekki að henda peningum ofan í svarthol er nokkrir þættir sem þú þarft að hafa í huga og undirbúa vel.

A/B prófanir, bæði á ljósmyndir og textann í auglýsinguna. Þetta er gert til að ná hámarksárangri og um leið til að auka/bæta CTR (Click Through Rate).

Bestun á lendingarsíðu – Hver smellur kostar peninga og því mikilvægt að þeir fari ekki til spillis. Það er því æskilegt að vanur textasmiður (og helst viðmótshönnuður) fari yfir lendingarsíðuna til að tryggja að hún skili tilætluðum árangri.

Óskrifuðu Facebook reglurnar – Hægt er að lækka kostnaðinn við hvern smell ef maður veit hvað Facebook finnst æskilegt. Við höfum séð dæmi þar sem áætlað verð pr. smell var 1.2 dollar en lækkaði svo í rúm 20 cent innan tveggja sólahringa þar sem Facebook líkaði hvernig auglýsingin virkaði og hvert umferðin var send. Hafðu samband við okkur ef þú vilt fá að vita meira.

12. Taktu virkan þátt utan eigin síðu

Það getur verið mjög gott að fá lykilstarfsmenn til að finna aðra Facebook síður í sama geira og  (notaðu leitina) taka þátt í umræðunni þar. Þetta er frábær leið til auka virkni starfsmanna á netinu en það eykur sýnileika fyrirtækisins óbeint.

Ef starfsmenn veita í sífellu góð ráð og gefa af sér í umræðunni mun það auka traust annarra notenda á þeim og fyrirtækinu þínu. Jafnframt eykur það líkurnar á því að aðrir notendur gerist aðdáendur/fylgjendur á Facebook síðunni þinni.

13. Nýttu þér tæknina til að benda á Facebook af vefnum þínum og víðar

Það eru fjölmargar leiðir til að auka sýnileika þinn á Facebook. Ef þú ert með blogg þá er tilvalið að gera fólki kleift deila fréttum þaðan inn á Facebook og gera like. Það eru svo auðvitað fjölmargir aðrir miðlar sem hægt er að nýta sér til að benda á Facebook síðuna þína.

★ Ummæli af bloggi yfir á Facebook: Það getur einnig verið góð hugmynd að tengja bloggið þitt við Facebook með Facebook Connect Plugin. Það gerir Facebook notendum kleift að setja ummæli við síðuna þín sem jafnframt birtast samstundis á veggnum þeirra þar sem allir vinir þeirra sjá þau. Þar af leiðandi eykst sýnileiki þinn töluvert við hver einustu ummæli.

14. Facebook utan internetsins

Það er full ástæða til að kynna Facebook síðuna þína víðar en bara á internetinu. Það er góð hugmynd að minnast á hana í öðrum auglýsingum og hvetja fólk til að “finna ykkur á Facebook”. Ef þú ert með verslun getur verið snjallt að kynna Facebook síðuna þar. Láta t.d. starfsfólkið benda viðskiptavinum á síðuna eða hreinlega vera með áminningu á kassakvittuninni.

15. Ekki halda að það séu bara unglingar á Facebook

Það er algengur misskilningur að það séu fyrst og fremst unglingar sem hangi sífellt á Facebook. Til dæmis eru nær allir íslendingar á aldrinum 20-29 ára skráðir á Facebook. Staðreyndin er sú að það er hægt að finna nokkurn veginn alla markhópa á Facebook og notendum fer fjölgandi með hverjum deginum sem líður. Í dag er mest vaxandi hópurinn á Facebook 50 ára og eldri.

Hafðu alltaf í huga hverjir þínir viðskiptavinir eru og hagaðu samskiptum þínum þannig. Ef þú passar uppá að það efni sem þú setur inn sé eins klæðskerasniðið að þínum viðskiptavinum og hægt er munt þú tryggja þér öruggan sess á Facebook og eignast þúsundir aðdáenda.

Forskot á samkeppnina!

Ef þú vilt tryggja þínu fyrirtæki forskot á Facebook skaltu hafa samband eða kíkja til okkar í kaffi.

Við getum aðstoðað þig við að gera skothelda áætlun sem tryggir þér þúsundir aðdáenda og nýja viðskiptavina á mjög skömmum tíma.

Hringdu núna í síma 554 0045 eða sendu póst á radgjof@netradgjof.is

11 ummæli

 1. Frábær grein! Fullt af atriðum þarna sem mér hafði ekki dottið í hug en mun bókað nýta mér í uppbyggingu fyrirtækisins míns. Takk fyrir mig.

  • Ekkert að þakka Davíð.

   Mundu að heimsækja þennan vef reglulega því hér muntu finna hafsjó af fróðleik sem þú getur nýtt þér til markaðssetningar á netinu.

 2. Flott grein. Beint í bookmarks.

  • Takk fyrir það Jóhann!

 3. Hressti meira að segja upp á profile-mynd Dohop á Facebook eftir að hafa lesið þetta. (Ég sé semsagt um Facebook og Twitter fyrir Dohop).

 4. Frábær grein Tryggvi, ættir að birta hana víðar.
  kveðja
  Eyþór

  • Takk fyrir það Eyþór. Við erum svo hógværir að við höfum hingað ekki verið að eltast við sviðsljósið. Kannski það sé að breytast :)

 5. Fróðleg grein og kveikti í mér að auglýsa mig betur. Ég er að kíkja yfir þetta punkta fyrir punkta og er að skoða þetta í samhengi við að keyra upp traffic á síðuna mína. Takk kærlega fyrir góða grein – ég er mjög sáttur.

  • Takk fyrir það Birgir. Alltaf ánægjulegt að heyra að greinarnar okkar eru að nýtast fólki!

Skildu eftir ummæli

© Netráðgjöf | Bankastræti 9, 101 Reykjavík | Sími 554 0045 | Netfang: radgjof@netradgjof.is|Persónuverndarstefna