Leitarvélabestun – 6 algeng mistök við leitarorðagreiningu

Því miður er allt of algengt að fólk áttar sig ekki á mikilvægi leitarorðagreiningar. Staðreyndin er nefninlega sú að leitaorðagreining er mikilvægasta skrefið í allri leitarvélabestun því öll önnur skref byggja á því að leitarorðagreiningin hafi verið rétt framkvæmd.

Leitarorðagreiningin mótar aðgerðaráætlunina í kringum leitarvélabestunina og því afar mikilvægt að hún sé vel unnin og villulaus. Hér eru nokkur algeng mistök sem fólk gerir við leitarorðagreiningu (keyword research).

Mistök nr. 1 | Algjörlega óraunhæf markmið

Mundu að einhver umferð er betri en engin umferð! Maður myndi ætla að leitarorðagreininga væri einföld og fljótleg. Maður nær sér bara í leitorðatól og  finnur þau orð sem hafa mesta umferð og tengjast faginu sem maður er í, ekki satt? Þetta er bara því miður ekki alveg svona auðvelt.

Það verður að meta hver samkeppnin er á hverju leitarorði fyrir sig. Mjög oft getur verið skynsamlegra að eltast við leitarorð með minni umferð ef samkeppnin er viðráðanlegri. Þegar samkeppnin er metin þarf meðal annars að taka tillit til aldur vefsvæðis (Domain age), vigt vefsvæðisins (authority) og hver sé líkleg þróun í leitarvélabestun á viðkomandi vef. Í stað þess að standa í margra margra mánaða eða margra ára baráttu um orð með mikilli umferð getur því verið snjallt að velja annað orð sem skilar árangri mun fyrr.

Það að velja alltaf orðin með mestu umferðina getur því verið óskynsamlegt og óarðvænlegt. Góð leitarorðagreining er þegar þú hefur valið leitarorðin af skynsemi og kostgæfni en ekki af græðgi og óraunsæi.

Mistök nr. 2 | Þú velur alltaf “broad match” fram yfir “exact match”

Þetta eru ótrúlega algeng mistök sem er auðvelt að leiðrétta. Magn umferðar skiptir gríðarlegu máli þegar verið er að meta leitarorð en því miður ótrúlega algengt að fólk átti sig ekki á því hvað felst í þessum mistökum.

Tökum dæmi:
Markaðsstjóri á hóteli í Reykjavík ákveður að kanna hve margir leita að “hotels reykjavik”  (broad match) – Google Keyword tool segir honum að það sé rosalega fín umferð á þessu orði svo hann ákveður að leitarvélabesta vefinn sinn fyrir þetta leitarorð. Þegar betur er að gáð og menn rýna í exact match niðurstöður kemur hinsvegar í ljós að það hefði verið skynsamlegra fyrir hann að einbeita sér að “reykjavik hotels” (ekki “hotels reykjavik)” því umferðin er helmingi meiri ef hann snýr orðunum á þennan veg.°

Það að venja sig á að nota exact match niðurstöður tryggir að verið sé að vinna með réttustu og bestu tölfræðina hverju sinni.

Mistök nr. 3 | Tilhneyging til að nota alltaf fleirtöluorð

Þegar verið er að selja og kynna vörur á netinu og mjög eðlilegt að menn hafi tilhneygingu til að nota fleirtöluorð. Fyrirtæki sem selur til dæmis tölvuskjái er til dæmis mjög líklegt til að besta hluta af vefnum út frá orðinu “tölvuskjáir” eða “skjáir” – Þetta eru hinsvegar mistök þar sem neytendur leita skjaldnast að vöru í fleirtölu. Google leitarorðatólið segir okkur til dæmis að það séu helmingi fleiri sem leiti að “tölvuskjár” heldur “tölvuskjáir”. Það geta því verið dýr mistök ef viðkomandi verslun leitarvélabestar ekki það orð, sérstaklega þar sem allir hinir virðast vera að gera sömu mistök og því samkeppnin meiri á orðinu sem hefur minni umferð!

Vendu  þig því á að skoða alltaf umferðartölur og samkeppni fyrir eintölu og fleirtölu.

Mistök nr. 4 | Fólk gleymir að skoða umbreytingarstuðla (conversion rates)

Stundum lendum við í því að viðskiptavinir okkar heimta að við leitarvélabestum ákveðin orð fyrir þá en þess að þeir hafi skoðað það hvort viðkomandi orð séu arðvænleg. Þó svo að það sé mikil umferð á sumum leitarorðum er ekki sjálfgefið að sú umferð umbreytist í viðskipti.

Vefur með mikla umferð segir bara hálfa söguna því mikil umferð er verðlaus ef hún umbreytist ekki í viðskipti. Það er því afar mikilvægt í allri leitarvélabestun að skoða umbreytingarstuðla fyrir öll helstu leitaorð til að tryggja alvöru árangur.

Mistök nr. 5 | Samhengislaus og stök leitarorð

Það er góður ávani að hugsa alltaf eins og sá sem er að leita. Slíkur hugsunarháttur eykur líkurnar á því að rétt leitarorð séu valin og þá sér í lagi þau leitarorð sem umbreytast í viðskipti.

Tökum smá dæmi til að setja þetta í samhengi. Ef þú værir með húsgangaverslun og seldir sófa er mjög líklegt að þú myndir vilja finnast á Google undir orðinu “sófi“. Vissulega mun orðið sófi skila þér mikilli umferð er ekki endilega það orð sem skilar þér mestum viðskiptum. Orðið sófi til sölu er til dæmis mun líklegra til að skila sér í viðskiptum því sá sem slær það inn í Google er klárlega kominn í kaupham og tilbúinn að taka upp veskið. Það getur því verið mun arvænlegra að setja orðið sófi í samhengi við sölu eða kaup, í þessu tilviki “sófi til sölu“.

Mistök nr. 6 | Skortur á endurmati

Leitarvélabestun á vera í föstu ferli sem er í sífelldu endurmati. Sem betur fer er flest fyrirtæki farin að átta sig á því að leitarvélabestun er ekki eitthvað sem gert er einu sinni og svo aldrei aftur. Þetta er ferli sem er alltaf í gangi og þarf að hlúa vel að. Því miður gleymast hinsvegar leitarorðin gjarnan í endurmatinu. Þ.e. það gleymist að endurmeta árangur af þeim leitarorðum sem verið er að vinna með og kanna hvort þörf sé á að leitarvélabesta ný orð.

Tilgangur þess að fara í endurmat á leitarorðum er til að a) kafa dýpra ofan í raunverulega árangur af þeirri umferð sem núverandi leitarorð eru að skila b) finna ný leitarorð og tækifæri sem geta skilað viðskiptum c) móta og endurmóta framtíðarstefnu í SEO málum.

Að lokum…

Vertu á tánum, ekki láta samkeppnina skjóta þér ref fyrir rass í leitarvélum. “Gúgglaðu” orðin þín regluega og fylgstu vel með eigin stöðu og því hvað er að gerast hjá samkeppnisaðilum.

 

Skildu eftir ummæli

© Netráðgjöf | Bankastræti 9, 101 Reykjavík | Sími 554 0045 | Netfang: radgjof@netradgjof.is|Persónuverndarstefna