Ertu að besta ALLA umferð?

Ertu bara að besta umferð á leitarvélum og á netinu? Hvað með alla hina umferðina?

Leitarvélabestun er að verða nokkuð vel þekkt orð, en það þýðir að láta heimasíðu koma sem best út á leitarvélum. Til að tryggja það að þegar þín vara eða þjónusta er “googluð” þá birtist hún ofarlega og að notendur (umferðin) smelli á þinn hlekk, fari inn á þína heimasíðu og geri það sem þú vilt að umferðin geri. Sama þarf að gera þegar auglýst er, eða að sjá til þess að sú umferð sem hlýst af auglýsinguni að hún geri það sem lagt var upp með.

Ein tegund umferðar sem fyrirtæki eru að kaupa sér virðist því miður ekki alltaf vera bestuð, en það er umferð af magntilboðsæðinu sem tröllríður öllu núna. Þarna eru fyrirtæki að kaupa sér mikið magn af umferð í formi afsláttar í gegnum vefi eins og Hópkaup, Aha, Gæsin o.fl. og bjóða jafnvel upp á vöru langt undir kostnaðarverði og ætla með því að “koma sér á kortið”. Þetta getur verið hættulegur leikur ef þessi umferð er ekki bestuð og markmið herferðinnar er ekki á hreinu.

Tökum dæmi…
Veitingahús í Reykjavík býður upp á hlaðborð í gegnum eina slíka síðu á verði sem engin getur hafnað. Veitingahúsið fær á einu bretti mjög mikla umferð og myndi maður halda að markmiðið væri að kynna veitingahúsið fyrir þessari umferð og tryggja að upplifunin væri slík að stór hluti umferðarinnar gæti hugsað sér að koma aftur eftir að tilboðinu líkur. Auðvelt væri að reikna út hvað veitingahúsið þyrfti að fá mikið af endurkomum til að sjá hvort þetta borgaði sig eða ekki.
Sé hinsvegar upplifunin neikvæð, getur þessi mikla umferð sem keypt hefur verið snúist upp í andhverfu sína og komið af stað neikvæðu umtali og minkað umferð í stað þess að auka hana og fyrirtæki því tapað miklum fjárhæðum.

Staðreyndin er sú að alla umferð þarf að besta og hugsa til enda auk þess sem markmiðin með öllum auglýsingaherfðum þurfa að vera á kristaltæru.

Skildu eftir ummæli

© Netráðgjöf | Bankastræti 9, 101 Reykjavík | Sími 554 0045 | Netfang: radgjof@netradgjof.is|Persónuverndarstefna