Penguin uppfærsla Google var martröð fyrir marga

Fyrir akkúrat mánuði síðan, 24. apríl,  fór í loftið svokölluð Penguin uppfærsla hjá Google leitarvélinni.

Þessi uppfærsla, sem bar vinnuheitið “webspam update”, breytti SEO landslaginu töluvert mikið og gerir enn ríkari kröfu um fagmannlegri vinnubrögð þegar leitarvélabestun er annars vegar.

En hvað er það nákvæmlega sem var að breytast og hvernig á að bregðast við þessari dramatísku breytingu, sérstaklega ef vefurinn þinn er nú að fá mun minni umferð en áður?

Í fyrsta lagi er mikilvægt að greina í sundur Penguin uppfærsluna og Panda 3.5 uppfærsluna sem fór í loftið 19. apríl. Panda uppfærslunni var beint gegn svokölluðum “low quality” vefsíðum og vefsetrum en Penguin uppfærslunni er beint gegn spami. Besta leiðin til að sjá hvor uppfærslan hafði áhrif á þinn vef er að skoða tölfræði og sjá hvor einhverjar áberandi breytingar voru á umferð 19. apríl annarsvegar og svo 24. apríl.

Hér eru nokkrir mikilvægir punktar varðandi Penguin uppfærsluna og leitarvélabestun

Þetta er það sem er vitað:

Umfang Penguin uppfærslunar er töluvert mikið en lauslegur samanburður við Panda 3.5 sýnir að mörgæsin hefur tvisvar sinnum meiri áhrif. Til að setja þetta í sögulegt samhengi þá segir Google að Panda 1.0 uppfærslan hafi haft áhrif á 12% af öllum leitum á enskri tungu en Penguin til samanburðar aðeins 3.1%

Þetta var ekki hreinsiaðgerð sem beindist að ákveðnum síðum heldur er um varanlega breytingu að ræða hjá leitarvélinni þannig að allir sem starfa við leitarvélabestun þurfa að endurmeta allar þær aðferðir sem hafa virkað hingað til.

Hvernig á að bregðast við?

Það eru svosem engar nýjar fréttir að menn þurfa  stöðugt að vera á tánum gangvart Google en sem dæmi þá breyttist virknin á bakvið leitarvélina þeirra 516 sinnum árið 2010 og mun oftar í fyrra.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að anda djúpt og taka öllu því sem gerist af yfirvegun. Það hjálpar engum að vaða af stað í einhverjar breytingar án þess að hafa farið ítarlega yfir stöðu mála. Það skiptir engu máli hve illa vefur varð fyrir barðinu á uppfærslum Google, það þarf alltaf að gefa sér góðan tíma í að meta stöðuna og umfang tjónsins. Þarna kemur Google Analytics að góðum notum því það er ekki nóg að vita hve mikil umferð tapaðist heldur er nauðsynlegt að vita nákvæmlega hvaða umferð tapaðist.

Rýndu í tímalínuna. Sem fyrr segir þá liggja dagsetningarnar á uppfærslum Google skýrt fyrir og því ætti ekki að vera mjög erfitt að sjá nákvæmlega hvenær umferðin datt niður. Ef mesta breytingin átti sér stað dagana 24. og 25. apríl er Penguin augljóslega hluti vandans.

Vertu viss um að tæknileg vandamál séu ekki að trufla tölfræðina eða hafa áhrif á stöðuleika í Google. Ef að vefurinn þinn hefur legið niðri í einhvern tíma, verið hægur eða  óstöðugur vegna hýsingar- eða tæknimála þá eru góðar líkur á að það sé ástæða þess að Google hendir honum neðar í leitarniðurstöður. Það er ömurlegt að eyða tíma og fjármunum í að endurgera og hanna SEO fyrir vefinn ef það kemur svo í ljós að það var ekki vandamálið.

Taktu út alla þá leitarvélabestun sem hefur átt sér stað á vefnum þínum. Það er mikilvægt að skoða ofan í kjölinn allt það sem hefur verið gert til að greina möguleg vandamál og hættur. Eru allir hlekkir eins og þeir eiga að vera? Er samsetning hlekkjanna (greinar, prófílar, blog, vísanir, o.s.frv.) í réttu hlutfalli og er rétt hlutfall af “exact keyword” hlekkjum á móti rótarlénshlekkjum? Ekki heldur gleyma að taka út alla SEO vinnu sem aðrir hafa gert fyrir þig, sérstaklega ef þú hefur verið að kaupa hlekki, blogg ummæli eða greinar í stórum stíl.

Hvernig á EKKI að bregðast við!

Ekki framkvæmda neitt í flýti. Það er auðvelt að gera mistök og gera vandann verri ef ráðist er í aðgerðir sem ekki eru þaulhugsaðar.

Ekki ráðaðst með sveðjunni á alla hlekkina sem vísa á vefinn þinn! Það liggur enn ekki nákvæmlega ljóst fyrir hvers konar hlekkjum mörgæsin refsar þar sem Panda 3.5 uppfærslan átti sér stað á svipuðum tíma. Svokallaðir “low quality” hlekkir eru en að hjálpa til við að ná árangri í Google og því ástæðulaust að tæta þá alla niður í von um að einhverjir þeirra séu undir Penguin refsingu. Ef þú hefur hinsvegar sterkan grun um að hlekkir séu vandamál byrjaðu þá allavegana yfirvegað og skipulega á þeim verstu:

  • Hlekkir sem augljóslega voru keyptir
  • Hlekkir frá vefsvæðum sem hafa fallið undir “content farm” og “scraper” uppfærslur hjá Google
  • Allir hlekkir í fæti sem nota “exact match keyword”
  • Fækka hlekkjum með “exact match anchors”

Það er góð regla að byrja á því að fjarlægja fyrst þá hlekki sem flokkast sem “lowest quality”. Ef hlekkur er líklegur til að valda refsingu og er auk þess “low quality” ætti að vera sársaukalaust að fjarlægja hann. Í framhaldinu er svo mikilvægt að hafa í huga að þegar fyrstu lotu er lokið, þ.e. búið er að fjarlægja líklegustu vandamálin getur tekið 1-2 mánuði að sjá breytingu þar að lútandi í Google. Það er því langt og strangt ferðalag að ná “rankinu” upp aftur.

Ekki þurrka út þá leitarvélabestun sem hefur átt sér stað nema hafa skýrt plan. Skoðaðu allan vefinn þinn í víðu samhengi og taktu mat á hverja síðu fyrir sig út frá þeim þáttum sem skipta máli og spurðu þig jafnframt einnar mikilvægrar spurningar: “Er síðan fyrir notendur eða er hún fyrir leitarvélar?”. Því miður missa margir sig í leitarvélabestuninni og setja vefinn upp fyrst og fremst fyrir leitarvélar en gleyma þeim sem heimsækj vefinn og vilja njóta hans.

Við mælum ekki með því að þú sendir “reconsideration request” á Google. Á meðan það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað felst í Penguin uppfærslunni er skynsamlega að nota tímann í að endurmeta alla þá leitarvélabestun sem hefur átt sér stað. Laga þá hlekki sem þarf að laga og tryggja að allt sé eins og best verður á kosið. Á komandi mánuðum mun koma skýrar í ljós hvað það er nákvæmlega sem Penguin refsar fyrir og við teljum að fram að því sé óskynsamleg að biðja Google um endurmat.

Lokaorð: lagaðu það sem hægt er að laga

Burt séð frá því hvort vefurinn þinn varð fyrir barðinu á Penguin, Panda eða Google almennt, einbeittu þér að því að laga það sem augljóslega er hægt að laga. Ef tæknileg vandamál eru til staðar gerðu þá eitthvað í því. Ef þú veist að þú hefur dansað á gráu línunni eða jafnvel notað þær aðferðir sem flokkast sem “black hat” gerðu þá eitthvað í því að laga það.

Leitarvélabestun er, var og mun alltaf verða endalaust langhlaup. Þegar vefur er færður langt niður í leitarniðurstöðum Google verða menn að horfast í augu við þá staðreynd að nýtt langhlaup var að hefjast og það mun taka þó nokkurn tíma að klífa upp aftur.

Skildu eftir ummæli

© Netráðgjöf | Bankastræti 9, 101 Reykjavík | Sími 554 0045 | Netfang: radgjof@netradgjof.is|Persónuverndarstefna