Leitarvélabestun / SEO

Leitarvélabestun

Orðið leitarvélabestun, eða eins og það heitir á ensku „Search Engine Optimization“ (SEO), ætti að vera orðið flestum kunnugt sem koma að markaðsmálum eða halda úti vefsíðu. Hinsvegar virðist þessi tegund vinnu vefjast fyrir mörgum og þá aðallega hvað þetta er.

Þegar ég byrjaði í þessum bransa fyrir 7 árum hvíslaði fólk oft þegar það fór að tala um leitarvélabestun því einhverra hluta vegna hélt fólk að um einhvers konar galdrabrögð væri um að ræða. Að forritarar eða tæknimógúlar hlytu að þekkja einhvern hjá Google og gæti kippt í spotta og bingó það væri nr. 1 á Google.

Svoleiðis hefur það aldrei verið og mun aldrei verða. Hinsvegar hafa alls kyns aðferðir verið notaðar til þess að fá síður ofar á leitarvélar sem hafa verið fullkomlega “eðlilegar” á sínum tíma. En það er efni í heila grein að fara í gengnum þær breytingar sem orðið hafa á leitarvélum síðustu árin.

En um hvað snýst þetta allt saman?

Hvað er þetta „leitarvélabestun“?

Hver gerir þessa leitavélabestun?

Af hverju auglýsi ég ekki bara á leitarvélum og læt þessa leitarvélabestun eiga sig?

Þetta eru þær spurningar sem við hjá Netráðgjöf fáum mikið og eiga þessar spurningar 100% rétt á sér.

Leitarvélabestun á 10 sekúndum:

Hvað vilja leitarvélar?

Þær vilja gott efni sem fólk vill skoða og segja öðrum frá … PUNKTUR

Einfalt ekki satt?

 Leitarvélabestun á 10 mínútum:

Hvernig vita leitarvélarnar að efnið er gott?

Þetta er akkúrat milljón krónu spurningin. Þær skilja það nefnilega út frá því hvernig “samskipti” fólk á við efnið.

Jú þarna komum við að kjarna málsins, ef fólk hefur ekki áhuga á að …

 • - Deila efninu (sama hvað miðillinn heitir)
 • - Niðurhalda efninu
 • - „Kommenta“ á efnið
 • - Gefa efninu einkunn
 • - Horfa á það
 • - Hlusta á það
 • - Lesa það
 • - Skrá sig í áskrift á því
 • - Fá það í tölvupósti
 • - O.s.frv.

eru allar líkur á því að efnið sé ekki athyglisvert og ef efnið er ekki athyglisvert, af hverju ættu leitarvélar að vilja birta það þeim sem leitar. Þetta er í grunninn svo einfalt þegar öll flóknu orðin, tæknilegu útskýringarnar, tal um uppfærslur hjá Google og allt það er sett til hliðar  – eða eins og ég sagði í byrjun greinar:

Búðu til gott efni sem fólk vill skoða og segja öðrum frá … PUNKTUR

Ekki misskilja mig, íslensk fyrirtæki hafa búið til gott efni í mörg ár en stóra breytingin er að þau gera það bara of hægt í dag, því hlutirnir gerast einfaldlega miklu hraðar núna en þeir gerðu fyrir nokkrum árum.

Tökum dæmi:

 • 100 klukkustundum af efni er sett inn á Youtube á mínútu
 • 300 milljón mynda eru settar á Facebook á dag
 • 20 mínútur er meðaltími fólks á Facebook á dag
 • 60 milljörðum mynda er deilt á Instagram á dag

Og svona gæti ég lengi talið.

Svo að einn status á viku ásamt mynd með settlegum texta er að öllum líkindum ekki að fara að gera mikið. Takið eftir ég er ekki að segja magn fram yfir gæði sé málið, alls ekki. Ég er að segja …

Gerðu gott efni sem fólk vill skoða og segja öðrum frá og mikið af því … PUNKTUR

Auðvitað eru fleiri atriði sem hafa þarf í huga eins og að leitarvélarnar skilji síðuna þína, hún sé tæknilega vel úr garði gerð svo að leitarvélar lesi hana rétt. Að umgjörð síðunnar lýsi innihaldi hennar og auðvelt sé að deila efni af henni og síðast en ekki síst að engar tæknilegar villur séu til staðar eins og brotnir linkar og fleira.  Þess vegna er mjög mikilvægt að fá fagaðila sem hefur reynslu af því að halda utan um slíkt verkefni og að gerð verði vönduð áætlun um hvernig skuli gera þessa vinnu og með hvaða hætti.

 

Skildu eftir ummæli

© Netráðgjöf | Bankastræti 9, 101 Reykjavík | Sími 554 0045 | Netfang: radgjof@netradgjof.is|Persónuverndarstefna